14.10.2013 | 15:55
Hljóðláta vonleysisstjórnin
Hljóðlát örvænting, uppgjöf og vonleysi.
Þetta er einmitt það sem er að gerast hér á landi og til viðbótar því sem er að gerast annars staðar í Evrópu eru íslensk heimili með verðtryggingu neytendalána sem setur okkur í mun verri stöðu en þessar þjóðir eru að glíma við.
Úr skýrslunni: "Skýrsluhöfundar segja, að milljónir Evrópubúa lifi við óöryggi um framtíðina sem sé einhver versta sálfræðilega staða sem mannfólkið geti komist í. Hljóðlát örvænting sé að breiðast út, uppgjöf og vonleysi. Í samanburði við árið 2009 hafi þeim fjölgað um milljónir sem bíði í röðum eftir mat og geti hvorki keypt lyf né leitað læknisaðstoðar. Auk þeirra milljóna sem séu án atvinnu séu margir þeirra, sem enn hafi vinnu í erfiðleikum með að ná endum saman vegna of lágra launa en stöðugt hækkandi verðlags."
Ég hef nú í nokkurn tíma varað við að þetta ástand sé fyrir löngu byrjað hér á landi en vegna skuldavandans hefur þetta ekki fengið næga athygli, nú þurfum við að vakna Íslendingar, við getum ekki lengur látið bjóða okkur upp á hljóðláta örvæntingu, uppgjöf og vonleysi. Vill ríkisstjórnin að hennar verði minnst sem " Hljóðláta vonleysisstjórnin "
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hér er umfjöllunin um þessa skýrslu inn á Evrópuvaktinni þar sem ég rakst á hana.
http://www.evropuvaktin.is/frettir/30549/
Rauði Krossinn: Evrópa er að sökkva í langvarandi og djúpa fátækt-vaxandi örvænting fólks. Hætta á þjóðfélagslegum óróa og pólitísku jafnvægisleysi
10. október 2013 klukkan 09:52
Evrópa er að sökkva í langvarandi og djúpa fátækt, fjölda atvinnuleysi, þjóðfélagslega útskúfun,vaxandi efnamun og allsherjar örvæntingu vegna aðhaldsstefnu síðustu fjögurra ára, segir í nýrri skýrslu alþjóðasamtaka Rauða Krossins, sem birt verður í dag. Á sama tíma og tekizt hefur að draga úr fátækt í öðrum heimsálfum er hún að aukast í Evrópu segir í skýrslunni.
Þá segir að langtíma afleiðingar þessa eigi eftir að koma í ljós en þeirra muni sjá stað í áratugi, jafnvel þótt staðan í efnahagsmálum batni. Skýrsluhöfundar velta því fyrir sér hvort Evrópuríkin skilji hvað hafi verið að gerast.
Frá þessari skýrslu segir í brezka blaðinu Guardian. Þar segir að framtíð Evrópu sé í mikilli óvissu vegna fjölda atvinnuleysis, sérstaklega meðal ungs fólks, um 120 milljónir Evrópubúa lifi í fátækt eða eigi á hættu að lenda í fátækt, og aukins fjölda ólöglegra innflytjenda, sem mæti vaxandi andúð í viðkomandi löndum. Vaxandi hætta sé á þjóðfélagslegum óróa og pólitísku jafnvægisleysi, sem sé talin tvisvar til þrisvar sinnum meiri en í flestum öðrum heimsálfum, meira óöryggi einkenni hina hefðbundnu millistétt og almennt ríki meiri óvissa um framtíðina en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari.
Skýrsluhöfundar segja, að milljónir Evrópubúa lifi við óöryggi um framtíðina sem sé einhver versta sálfræðilega staða sem mannfólkið geti komist í. Hljóðlát örvænting sé að breiðast út, uppgjöf og vonleysi. Í samanburði við árið 2009 hafi þeim fjölgað um milljónir sem bíði í röðum eftir mat og geti hvorki keypt lyf né leitað læknisaðstoðar. Auk þeirra milljóna sem séu án atvinnu séu margir þeirra, sem enn hafi vinnu í erfiðleikum með að ná endum saman vegna of lágra launa en stöðugt hækkandi verðlags.
Á árunum milli 2009 og 2012 hafi fjöldi þeirra, sem byggi á matargjöfum Rauða Krossins í 22 löndum aukist um 75%. Fleiri séu að verða fátækir. Þeir fátæku séu að verða enn fátækari.
Skýrsluhöfundar segja, að vandinn sé ekki bundinn við Suður-Evrópu og Írland. Hann hafði náð til Þýzkalands og Norðurlandanna. Sjálfsvíg kvenna í Grikklandi hafi tvöfaldast. Í Slóveníu sé fjöldi fólks sem enn hefur vinnu en ekki fengið greidd laun í marga mánuði. Í Frakklandi hafi 350 þúsund manns fallið niður fyrir fátæktarmörk á árunum 2008 til 2011. Einn af hverjum fimm Finnum, sem fæddust árið 1987 hafi þurft á meðferð að halda vegna sálrænna vandamála og geðraskana, sem tengist efnahagshruninu í Finnlandi á tíunda áratug síðustu aldar.
Þrátt fyrir velgengni Þjóðverja sé um fjórðungur vinnandi fólks í Þýzkalandi láglaunafólk. Nálægt helmingi nýrra ráðninga frá 2008 hafi verið í láglaunastörfum, sveigjanlegum störfum, svonefndum „mini“-störfum, sem lítið öryggi fylgi og engin félagsleg hlunnindi. Í júlí á síðasta ári hafi 600 þúsund manns í vinnu í Þýxkalandi, sem nutu tryggingabóta ekki haft nægilegt handa á milli til að komast af. Vandinn sé að ná til Danmerkur og Lúxemborgar.
Í Eystrasaltsríkjunum og í Ungverjalandi sé vandinn slíkur að um 13% íbúa hafi yfirgefið löndin vegna efnahagslegra þrenginga. Skýrslan segir að fólksstraumurinn í Evrópu sé frá austri til vesturs.
Hin þjóðfélagslegu áhrif séu mikil. Í Grikklandi og á Spáni sé uppkomið fólk með börn að flytja heim til foreldra sinna, nokkrar fjölskyldur búi saman og þar sé ein fyrirvinna. Það sé nú orðið algengt að karlar og konur sem áður komust vel af sofi úti í Mílanó á Ítalíu.
Atvinnuleysi meðal ungs fólks er frá 33% upp í 60% en jafnframt er stórvaxandi atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 50-64 ára og það hefur aukizt í þeim aldursflokki úr 2,8 milljónum í 4,6 milljónir innan ESB á milli áranna 2008 til 2012.
Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 14.10.2013 kl. 16:00
Og hér er frétt inn á Evrópuvaktinni daginn eftir sem Styrmir Gunnarsson skrifar.
Þó ég hafi nú nær undantekningarlaust verið sammála Styrmi undanfarið um greiningar hans á samfélags og þjóðmálum undanfarið þá verð ég samt að segja að ég er ekki sammála greiningu hans á stöðu íslenskra heimila sem betri en þeirra Evrópsku, við stöndum sýst betur og höfum verðtryggingu neytendalána í ofanálag.
http://www.evropuvaktin.is/leidarar/30563/
Hrikaleg lýsing Rauða Krossins á þjóðfélagsástandinu í Evrópu
STYRMIR GUNNARSSON
11. október 2013 klukkan 09:56
Langt er síðan jafn harkaleg gagnrýni hefur birtzt á stöðu mála í Evrópu og í nýrri skýrslu alþjóðasamtaka Rauða Krossins, sem sagt var frá hér á Evrópuvaktinni í gær. Skýrslan var birt í gær að sögn brezka dagblaðsins Guardian. Í stuttu máli segja skýrsluhöfundar að Evrópa sé að sökkva í langvarandi og djúpa fátækt. Þeir fullyrða að um 120 milljónir Evrópubúa lifi í fátækt eða eigi á hættu að lenda í fátækt. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að íbúar aðildarríkja Evrópusambandsins eru um 500 milljónir. Þetta þýðir að nálægt fjórðungur íbúa Evrópu býr við fátækt eða stendur á mörkum þeirrar skilgreiningar,
Skýrsluhöfundar Rauða Krossins segja, að í þessari heimsálfu ríki fjölda atvinnuleysi, þjóðfélagsleg útskúfun, vaxandi efnamunur og allsherjar örvænting.
Það er athyglisvert að það eru hvorki pólitískir aðilar né hugveitur, sem oft hallast í ákveðna átt í pólitík heldur mannúðarsamtök á borð við Rauða Krossinn, sem halda þessu fram.
Þá benda skýrsluhöfundar á að þetta ástand hafi leitt til þess að vaxandi hætta sé á þjóðfélagslegum óróa og pólitísku uppnámi og að sú hætta sé talin tvisvar sinnum til þrisvar sinnum meiri en í öðrum hlutum heimsins. Þeir segja hljóðláta örvæntingu vera að breiðast út, uppgjöf og vonleysi. Fólki, sem standi í biðröðum eftir mat hafi fjölgað um milljónir á nokkrum árum og þetta sama fólk geti hvorki keypt lyf né leitað sér læknisaðstoðar.
Þeir fullyrða að þessi vandi sé ekki bara bundin við þau aðildarríki ESB, sem hafi þurft á björgunaraðgerðum að halda heldur sé vandinn að ná til ríkja á borð við Þýzkaland, Lúxemborg og Danmörku. Í Mílanó á Ítalíu sofi fólk úti, sem fyrir nokkrum árum tilheyrði millistétt, sem komst vel af.
Hvað er hér að gerast? Hvernig hafa Evrópuríkin þróast á þennan veg? Skýrsluhöfundar segja að aðhaldspólitíkin svonefnda sé meginástæðan. Það má vel vera, þótt utan frá séð snúist aðhaldspólitíkin um að venja þjóðir af því að lifa um efni fram.
Það er ekki hægt annað en að taka skýrslu frá alþjóðasamtökum Rauða Krossins alvarlega. Og í ljósi lífsreynslu okkar Íslendinga fer að verða spurning um hvar stærsta hrunið varð, hvort það varð hér á Íslandi eða hvort það varð kannski á heimaslóðum þeirra ríkja, sem settu sig á háan hest gagnvart okkur Íslendingum fyrir fimm árum.
Það verður fróðlegt að sjá hvort skýrsla Rauða Krossins nær athygli fólks í Evrópu eða hvort hún fer í ruslakörfuna eins og margar slíkar skýrslur. Með þessari skýrslu hefur stærsta pólitíska úrlausnarefni Evrópuríkja verið skilgreint. Þetta er miklu alvarlegri og djúpstæðari vandi en þau efnahagsvandamál sem þessi ríki og þá sérstaklega evruríkin hafa verið að kljást við.
Þau vandamál, sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir eru barnaleikur í samanburði við þá mynd, sem Rauði Krossinn dregur upp af stöðu mála í Evrópu.
Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 14.10.2013 kl. 16:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.