16.2.2012 | 02:38
Nú á að beita misvægisvopninu og etja lánþegum saman.
Alveg ótrúlegt, hafa menn innan ríkisstjórnarinnar ekkert lært á fyrri vitleysum og ólögum.
Nú á að funda með helstu aðilum um vaxtadóminn nýfallna sem er bönkunum í óhag og lýsandi fyrir ódug ríkisstjórnarinnar sem setti t.d á heimili landsins lög númer 151/2010 sem heimiluðu bönkunum að brjóta stjórnarskránna á þegnum landsins. Stjórnarþingmenn bera fulla ábyrgð á þeim lögum hvort sem þeir sátu hjá eða samþykktu þau, sérstaklega bera þeir líka ábyrgð á því að allur þessi tími hafi liðið án þess að skera út um þann mikla lagalega ágreining sem þeir gerðu sér grein fyrir allan tímann án þess að bregðast við. Þeir bera líka fulla ábyrgð á öllum þeim heimilum sem hafa lent undir hamrinum eða verið gerð gjaldþrota allan þennan óvissutíma.
Hverjir eru boðaðir á fund efnahags og viðskiptanefndar til að ræða dóminn um brot á stjórnarskrárvörnum rétti okkar og áhrif hans á okkur þegna þessa lands. Jú auðvitað hafa verið boðaðir fulltrúar efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, fulltrúar Seðlabankans og fulltrúar Fjármálaeftirlitsins.
Finnst ykkur ekki vanta einhvern til að ræða við sem er fulltrúi þeirra sem er hinum megin eða réttara sagt ætti að vera hinum megin við borðið. Hvar eru fulltrúar þeirra sem hingað til hafa þurft að borga brúsann, þ.e. fulltrúar heimilanna í landinu og þeirra sem ólöglegu reikningarnir hafa verið sendir á hingað til með leyfi og vilja ríkisstjórnarinnar og einbeyttum brotavilja fjármálastofnanna.
Það er ekki eins og t.d. við í Hagsmunasamtökum heimilanna höfum ekki bent ríkisstjórninni og bönkunum á að þetta séu og hafi verið ólöglegir gerningar og lög sem þeir hafa verið að vinna eftir allan tímann. Við höfum boðið upp á lausnir sem hefðu sett alla lánþega á sama grunn óháð því hvort þeir tóku gengis eða verðtryggð lán. Við höfum í raun boðið hina kinnina þegar slegið hefur verið á þá fyrri en nú er búið að bjóða allar kinnar og nú verða lög og mannréttindi bara að leysa úr þessum ágreiningi eins og gert var með þessum dómi sem hér er fjallað um.
Við höfum meira að segja ekki látið það á okkur fá þó þeir hafi nánast hlegið að okkur undanfarin þrjú ár og allan þennan tíma notað hvert tækifæri til að hæða það sem við höfum lagt fram en sagan hefur nú bara sýnt okkur að við höfum haft rétt fyrir okkur allan tímann með ólögmæti gengisbyndingarinnar og ólögmæti þess að hægt væri að reikna hærri vexti afturvirkt á greiddar kröfur.
Það má ekki heldur gleyma því að það á eftir að taka á stökkbreyttum hækkunum höfuðstóls venjulegra íslenskra verðtryggðra lána og leiðrétta þau líka eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa einnig verið að berjast fyrir allan sinn tíma. Einhvern veginn hafi sú barátta þó týnst í umræðunni um gengislánin. Kannski er því um að kenna að þeir sem tóku verðtryggð lán hafa hingað til talið sig heppna og þá í samanburði við þá sem tóku gengisbundin lán, að þeir hafa ekki stutt nægilega við bakið á okkur í HH fyrir baráttu okkar fyrir þeirra hönd. Við þ.e. heimili og skuldarar þessa frábæra lands sem ísland er megum og verðum að passa okkur á því að láta ekki æsa okkur upp hvert gegn öðru með því að nú eru gengislánin allt í einu orðin betri en verðtryggðu lánin. Málið er núna að sameinast og berjast fyrir leiðréttingu stökkbreyttra verðtryggðra lána í beinu framhaldi af þessum dómi.
Hvernig væri nú fyrir ríkisstjórnina að gera þetta nú rétt í þetta sinn og bjóða fulltrúum skuldara til að ræða þeirra hlið á þessum málum. Sú einhliða og einlita umræða sem hingað til hefur verið ástunduð af ríkisstjórninni, fjármálastofnunum og stjórnkerfinu hlýtur að vera búin að sýna þessu liði hvernig þetta mun enda ef svona heldur áfram.
Ef ekki verður orðið við þessum sjálfsögðu mannréttindum þá er einsýnt að þessi ríkisstjórn verður að fara frá völdum og hleypa nýju fólki að. Þetta ástand sem nú er komið yfir okkur íslendinga þolir ekki lengri bið eftir engu sem þessi ríkisstjórn hefur verið að bjóða okkur í þrjú löng ár. Nú er komið nóg.
Kannski sannast hér hið fornkveðna, Sá hlær best sem síðast hlær.
Vilhjálmur Bjarnason Ekki Fjárfestir
Eykur á misvægi lántaka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Stjórnarþingmenn bera fulla ábyrgð á þeim lögum hvort sem þeir sátu hjá eða samþykktu þau"
Við skulum nú endilega halda því til haga að stjórnarandsaðan er nákvæmlega jafn sek, að undanskyldri Hreyfingunni leit ÖLL stjórnarandstaðan undan (sat hjá eða var fjarverandi) þegar þessi lög runnu í gegn og beitti sér á ENGAN hátt til þess að hindra lagasetninguna.
Og ekki hefur stjórnarandstaðan heldur neitt beitt sér í því að fá þessi lög afnumin, þvert á móti bullaði t.d. Guðlaugur Þór tóma dellu þegar hann vildi gera einhverja smávægilega breytingu á þessum lögum um útreikiningana sem skiptu lántakendur ekki nokkru einasta máli.
Það eru 60 mútuþegar fjórflokksins sem allir bera jafna og óskipta ábyrgð á þessum ólögum Árna Páls.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 03:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.