17.2.2011 | 17:55
Bendi á ályktun Hagsmunasamtaka heimilanna um neysluviðmið og sára vöntun á að finna út raunframfærslukostnað
Hér fyrir neðan er ályktun Hagsmunasamtaka heimilanna sem ég setti saman með Hörpu Njáls sem er einn fremsti sérfræðingur okkar um málefni framfærslukostnaðar og fátæktar á Íslandi. Þar kemur fram að framsett "viðmið" eru ekkert annað en útreikningur á neyslu, sá sem er með lítið á milli handanna eyðir bara því sem hann hefur og því verður hans "viðmið" lágt þó hann þyrfti að hafa miklu meira á milli handanna til að geta lifað mannsæmandi hófsömu lífi fyrir sig og börnin sín. Þannig að þær tölur sem koma fram í skýrslunni um neyslu eru kannski að segja okkur að raunframfærslukostnaður sé hærri en svokallað "miðgildi" eyðslu sem Velferðaráðuneytið kýs að nota. þetta "miðgildi" er svo lægra en meðaltalið í skýrslunni og því notað, allt gert til að finna sem lægsta tölu. Mér sýnist þetta bara þýða það að laun og bætur séu allt of lág á Íslandi en allt sé gert til að það komi ekki fram og sé skjalfest því þá þarf að fara eftir því og hækka bætur og laun.
Það er í raun ekki hægt að kalla þessa skýrslu, "skýrslu um neysluviðmið" þetta er bara einföld skýrsla um raunneyslu, unnin upp úr gögnum Hagstofunnar úr skýrslum tiltekinna heimila sem hafa tekið þátt í neyslukönnunum þeirra í gegnum árin. Að leyfa sér að kynna þessa "skýrslu" sem neysluviðmið er í besta falli yfirklór og í versta falli fölsum og afvegaleiðing þeirrar þörfu umræðu hvað það kostar fyrir venjulegt heimili að reka það með mannsæmandi hóflegum hætti.
Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir
Ályktun Hagsmunasamtaka heimilanna um skýrslu Velferðaráðuneytisins: Neysluviðmið fyrir íslensk heimili.
Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna ber að líta útgáfu skýrslu velferðarráðuneytisins jákvæðum augum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að þau neysluviðmið sem kynnt eru í skýrslunni endurspegla ekki raunframfærslukostnað eða lágmarks framfærslukostnað heldur rauntölur um neyslu fólks á Íslandi seinustu ár.
Til skýringa felst munurinn á útreiknuðum neysluviðmiðum og raunframfærsluviðmiðum í því að annars vegar er miðgildi raunneyslu mælt út frá fyrirliggjandi tölum Hagstofunnar en hins vegar er eðlileg raunframfærsla fundin út af sérfræðingum og er þá miðað við að þeir setji saman ýtarlega vöru, þjónustu og neyslukörfu sem á að teljast fullnægjandi lýsing á hóflegri eða eðlilegri framfærsluþörf fjölskyldu af tiltekinni stærð á tilteknum stað á tilteknum tíma. Raunframfærslukostnaður og lágmarks framfærsluviðmið unnin út frá þeim hafa um margra ára skeið verið opinber á öðrum Norðurlöndum, svo sem Danmörku, Svíþjóð og Noregi.
Af efni nýútkominnar skýrslu velferðarráðuneytisins er ekki hægt að segja til um hvort og þá hversu margir eru með ráðstöfunartekjur undir framfærslukostnaði eða hvað þá lágmarks framfærslukostnaði. Margt bendir þó til þess að mjög margar fjölskyldur safni skuldum um hver mánaðarmót eða lifi við skort brýnna nauðsynja. Sérstaklega á þetta við um barnafjölskyldur auk heimila sem þurfa að treysta á bætur og / eða framfærslu hins opinbera auk fjölda fólks í láglaunastörfum sem eru í raun föst í fátækragildru.
Stjórnvöldum ber skylda að komast að því hver raunframfærslukostnaður heimilanna er svo unnt sé að lögfesta raunframfærslu og lágmarksframfærsluviðmið unnin út frá þeim. Á meðan sú vinna stendur yfir er nauðsynlegt að hið opinbera gefi nú þegar út lágmarksframfærsluviðmið til bráðabirgða sem taki mið af nýkynntum neysluviðmiðum. Þessi krafa er þar að auki byggð á 25. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.
Án þess að draga dul á hækkunarþörf launa að raunframfærsluviðmiðum vilja Hagsmunasamtök heimilanna benda á að eindregin krafa þeirra um almenna leiðréttingu stökkbreyttra íbúðalána er ein öflugasta kjarabót sem völ er á. Sú leiðrétting hefði veruleg áhrif til lækkunar á framfærslukostnaði þorra almennings.
Fyrir hönd Greiðsluerfiðleikateymis (GET) hóps HH, Vilhjálmur Bjarnason meðstjórnandi og Harpa Njáls félagsfræðingur.
Hagsmunasamtök heimilanna
15. febrúar 2011
Lýstu sárri fátækt í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta :) - saman getum við virkilega knúið fram breytingar!
Kristbjörg Þórisdóttir, 17.2.2011 kl. 21:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.