Framfærsluvandinn að koma í ljós, er margoft búinn að vara við þessu.

þetta er rétt að byrja, því miður, en við getum snúið þessu við, ef við þorum.

Nú virðist það að byrja sem við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum verið að vara við undanfarin rúm þrjú ár. Falinn framfærsluvandi fjölskyldnanna er að koma í ljós og þær búnar með allan séreignarlífeyrissparnaðinn sinn, búnar að selja allt sem hægt er að selja og fá öll þau lán sem hægt er að fá lánuð á meðan heimilin hafa verið að bíða eftir "alvöru" aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem virðist endanlega hafa sofnað á verðinum sem margir höfðu þó von til framanaf að mundi ekki gerast en er nú endanlega komið í ljós en samt ætla allir að kjósa þetta sama lið yfir sig aftur.

Það er skömm af því hvað margir hér á landi þurfa að velja á milli þess að eiga fyrir mat eða eiga fyrir leigunni eða afborgunum lána húsnæðis fyrir fjölskylduna. Ég hef margoft, bæði í bloggi mínu og vinnu fyrir Hagsmunasamtök heimilanna þar sem ég er í stjórn, bent á að það er ekki bara skuldavandi sem almenningur á við að etja hér á landi heldur líka að launavandinn eða eins og ég hef kallað það, framfærsluvandinn, sé orðinn það mikill að það sé sívaxandi fjöldi fólks sem hefur ekki efni á að halda heimili með sómasamlegum hætti og þurfi að bjóða börnum sínum upp á eitthvað sem á ekki að þurfa að líðast í þjóðfélagi eins og okkar. Höfum við bent á að gera þurfi raunframfærsluviðmið sem grunnlaun, tryggingar, bætur og atvinnuleysistryggingar yrðu miðaðar út frá. Það sem gert var í fyrra og kallað var neysluviðmið var ekkert annað en mæling á neyslu en hafði ekkert með það að segja hvað kostar að lifa á Íslandi fyrir fjölskyldurnar.

Til skýringa felst munurinn á útreiknuðum neysluviðmiðum og raunframfærsluviðmiðum í því að annars vegar er miðgildi raunneyslu mælt út frá fyrirliggjandi gögnum Hagstofu Íslands. Hins vegar er eðlileg raunframfærsla fundin út af sérfræðingum og er þá miðað við að skilgreina framfærsluþætti og þjónustu sem á að teljast fullnægjandi lýsing á hóflegri og eða eðlilegri framfærsluþörf fjölskyldu af tiltekinni stærð, á tilteknum stað og á tilteknum tíma. Út frá skilgreindum framfærsluþáttum sem teljast uppfylla eðlilega framfærsluþörf er fundinn raunframfærslukostnaður.

Raunframfærslukostnaður og lágmarks framfærsluviðmið unnin út frá þeim hafa um margra ára skeið verið opinber á öðrum Norðurlöndum, svo sem Danmörku, Svíþjóð og Noregi og eru grunnlaun og annar framfærslukostnaður miðaður við það þannig að þeir sem eru með lægstu launin og lifa á bótum geta lifað nokkuð mannsæmandi lífi í þessum löndum sem er ekki hægt hér á landi. Að mínu mati er það ein mesta kjarabótin sem völ er á að aflétta verðtryggingunni af heimilum landsins og setja á sama tíma hámark á vexti húsnæðislána þannig að allir aðilar hafi hag að því að halda verðhækkunum í lágmarki og þar með verðbólgu sem verðtryggingin er afleiða af.

Ástandið á eftir að versna mikið ef við förum ekki að horfast í augu við vandann og gera það sem gera þarf og vil ég meina að það sé mikill dulinn vandi, t.d vegna þess að fjármálastofnanir skrái vandann ekki rétt og séu ekki að gefa upp réttar tölur um fjárhagsvanda heimilanna. Má í því sambandi minnast á að það eru ekki til samræmdar tölur um þann vanda sem þó er hægt að mæla og frumvarp sem gefur leyfi til samkeyslu gagn var kæft í nefnd þingsins í fyrra.   

Þetta er ekkert annað en þöggun af verstu tegund sem kemur til með að bíta okkur illilega þegar hið rétta kemur í ljós og áhyggjur mínar og okkar í Hagsmunasamtökum heimilanna hafa verið í þá vegu að þá verði vandinn orðinn nánast óbærilegur fyrir allt of marga með öllu því slæma sem því fylgir eins og nú er að koma í ljós. Komst þó að því á seinasta ári innan hóps sem heitir Velferðavaktin og ég á sæti í fyrir Hagsmunasamtök heimilanna að það voru þá 68 % lána Íbúðalánasjóðs sem ekki er verið að borga af samkvæmt upprunalegum lánaskilmálum sem þýðir að það eru bara 32 % lána ÍLS sem verið er að borga af eins og upphaflega stóð til og samið var um og gefur það mér ástæðu til að ætla að ástandið sé ennþá verra hjá bönkunum því þeir lánuðu miklu hærri upphæðir vegna íbúðarlána auk þess að lána til endurfjármögnunar eftir miklar hækkanir sem sköpuðust vegna óhóflegra lána þeirra þar sem jafnvel var tekið inn í 40 ára húsnæðislán yfirdráttur og bílalán lántakans og honum svo boðinn nýr yfirdráttur og nýtt bílalán strax á eftir á meðan ÍLS lánaði þó bara til íbúðarkaupa og að hámarki 16 til 20 milljónir.

Nú fara Hagsmunasamtök heimilanna að leggja fram kæru sína á verðtryggingu neytendalána. Hvet ykkur til að bjóða öllum vinum ykkar að ganga í HH, það er ekki nóg að vera Facebook vinur HH, aðalslagkrafturinn er í félagaskránni. þegar við förum á fundi þá er oft spurt hvað félagsmenn séu margir og þó þeim hafi fjölgað úr rúmum 4 þúsundum í yfir 8 þúsund á einu ári þá munar um alla.
Ef ykkur líkar það sem við höfum verið að gera undanfarin ár þá endilega skráið ykkur í HH og bjóðið öllum Facebook vinum ykkar líka, sjá hér fyrir neðan.
Við getum komið okkar frábæra landi og þjóð út úr þessum vítahring ef við bara viljum og stöndum saman.

mbl.is Um 500 ný heimili í vanskilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vandinn er, Villi, að stjórnvöld eru einhvers staðar í draumaheimi og halda að þau hafi verið ofsalega góð við heimilin.  Er sammála að við vöruðum við þess.  Sögðum hvernig hlutirnir myndu þróast, en þau kjósa að hlusta á þá sem keyrðu allt í kaf.  Mér þykir verst að afleiðingarnar eru sífellt betri útkoma Sjálfstæðisflokksins í könnunum.  En þangað sækir klárinn sem hann er kvaldastur.

Segja má að Íbúðalánasjóður horfi fram á vanda svipuðum undirmálslánum í Bandaríkjunum.  Fyrir ákveðinn hóp lántaka þá eru þeir í líkri stöðu, þ.e. greiðslubyrðin er vaxinn þeim yfir höfuð.  Munurinn er að þeim íslensku er ætlað að greiða illa fengnar kröfur íslenskra fjármálafyrirtækja.  Kröfur sem hluti þeirra fékk á útsöluverði.

Hitt er að Íbúðalánasjóður verður engu bættari að leysa til sín fleiri íbúðir.  Hann verður heldur engu bættari að afskrifa skuldir sem núverandi eigendur ráða ekki við bara til að einhver annar eignist íbúðina á lækkuðu verði.  Ég hélt að nýr forstjóri Íbúðalánasjóðs hefði meiri skilning á þessu, en nú kemur í ljós að hann var fljótur að fella grímuna.

Marinó G. Njálsson, 8.9.2012 kl. 14:42

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það sem menn virðast gleyma sem tala eins og Vilhjálmur hér er að það getur engin fengið lán á betri kjörum en einhver annar er tilbúin til að lána á. Það hefur aldrei geifist vel að löggjafinn setji lög um verð sem er lægra en það verð sem annars myndast á markaði. Slíkt leiðir alltaf til skorts á vörunni vegna þess að þá verður framboðið minna en eftirspurnin. Vissulega eru til undantekningar frá þessu í tilfelli einkaeinokunar en það á ekki við í þessu tilfelli.

Niðurstaðan af því að setja hámark á vexti íbúðalána verður því einfaldlega sá að meiri eftirspurn verður eftir húsnæðislánum heldur en nemur framboði þeirra. Þá þarf að taka upp einhvers konar skömmtunarkerfi sem hætt er við að endi í einhvers konar klíkuskap. Vissulega getur þetta farið í þann farveg að lánshlutfallið lækki einfallega þangað til jafnvæginu er náð en það mun gera húsnæðiskaup erfið ef ekki útilokuð fyrir þá sem ekki hafa aðgang að lánsveðum eða öðrum leiðum til að fjármagna það sem upp á vantar. Þeir verða þá ofurseldir leigumarkaði sem hugsanlega leiðir til tíðra búferlaflutninga hjá þeim með tilheyrandi vanda fyrir börn þeirra sem sífellt eru að skipta um skóla.

Það stenst ekki eingarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að taka verðtryggingu af þegar teknum verðtryggðum lánum frekar en því að setja lög um flata niðurfellingu þeirra og því er það og hefur alltaf verið lokuð leið. Það er því ekki og hefur aldrei verið möguleiki að koma á slíkri lækkun öðruvísi en að skattgreiðendur greiði kostnaðinn af því að mestu eða öllu leyti. Allar þær talnaleikfimihugmyndir sem HH hafa komið fram með í gegnum tíðina hafa verið útóbíur sem aldrei hafa haft nokkurn möguleika á að ganga upp. Það sama á við um það frumvarp sem Hreyfingin hefur lagt fram í þessu efni.

Það hefur því alla tíð skort á rauhæfar hugmyndir um fjármögnun flatrar niðurfærslu lána hjá þeim sem gert hafa kröfur um slíkt.

Hins vegar er ég alveg sammála því að það þarf að setja framfærsluviðmið hér á landi eins og gert er í sumum nágrannalöndum okkar. Það þarf hins vegar að vera rauhæft með þeim hætti að það sé innan þess sem við höfum efnahgslegan styrk til að uppfylla. Framfærsluviðmið sem við getum ekki uppfyllt verður þá alltaf eitthvað sem við uppfyllum ekki í öllum tilfellum og þá venst fólk því að þessu viðmiði sé ekki fullnægt í öllum tilfellum og þá er tilgangslaust að hafa það. Það verður alltaf skilgreiningaratriði að miklu leyti hvað eru nauðsynjar og hvað ekki og hvað er eðlilegt að allar fjölskyldur geti leyft sér. Er til dæmis bíll nauðsynjavara eða eitthvað sem eðlilegt er að gera kröfu til að allar fjölskyldur hafi efni á? Hvað með utanlandsferðir eða dýr ferðalög yfir höfuð? Svona mætti lengi telja.

Sigurður M Grétarsson, 8.9.2012 kl. 19:40

3 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Sigurður M Grétarsson, kannski dugar bara að svara þér með lýsingu þinni á þér sjálfum inn á blogginu þínu en þar stendur:

"Sigurður M Grétarsson Höfundur er viðskiptafræðingur, Kópavogsbúi og mikill jafnaðarmaður enda flokksbundinn í Samfylkingunni."

En þar fyrir utan langar mér að benda þér á eftirfarandi:  

Þér finnst í lagi að falsa framfærsluviðmið í stað þess að horfast í augu við vandann.
Þér finnst í lagi að sumar fjölskyldur séu skildar eftir, bara ef þær átta sig ekki á því og er ekki sagt frá því.
Þú skautar fram hjá því sem ég segi að verðtrygging neytendaalána er ólögleg og hefur lengi verið það. Það sem er ólöglegt á að leiðrétta, einfalt.
Þú segir tillögur HH útópíu án þess að koma með raunhæfar tillögur sjálfur eða flokkurinn þinn og ef eitthvað er þá eru þær lausnir sem flokkurinn þinn hefur komið með útópíur af verstu gerð fyrir íslensk heimili og íslenskar fjölskyldur.
Þú talar um eignarréttaráhvæði stjórnarskrárinnar eins og þau verji bara það sem búið er að taka að venjulegu fólki og þá sem tóku það, ólöglega.
Minni þig á að Jóhanna, átrúnargoðið þitt, kallar stjórnina sína "norræna velferðastjórn" og minni þig á í því samhengi að í hinum norrænu alvöru velferðasamfélögunum eru veitt óverðtryggð lán á lágum vöxtum allt upp í 100 % af kaupverði án þess að fasteignamarkaðir þar fari á hliðina.
Sem sagt, þú ert ekta Samfylkingarmaður, segir, styður og gerir bara það sem hentar þér og þínum flokki á hverjum tíma.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 9.9.2012 kl. 16:43

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Vilhjálmur. Ég hef aldrei talað um fölsun á framfærsluviðmiði. Það er hins vegar alltaf matsatriði hvað á að vera þar inni því það sem við flokkum sem nauðsynjavörur í dag er ekki bara fæði, klæði og húsnæði sem augljóslega eru nauðsynjavörur. Við getum fært alls konar rök fyrir því að hitt og þetta séu nausynjavörur eins og til dæmis bílar, ferðalög og fleira þrátt fyrir að fólk getu vel lifað án þessara hluta. Það sem ég sagði er að við þurfum að varast að skilgreina það sem nauðsynjavörur sem við ráðum ekki við að útvega öllum fjölskyldum og þær geta alveg verið án.

 Hvaða fjölskyldur eru skildar eftir af því að "þær átta sig ekki á því og er ekki sagt frá því". Hverju eru þær ekki að átta sig á og hverju er þeim ekki sagt frá.

Það liggur ekki fyrir dómur um að verðtryggð neytendalán séu ólögleg og meðan svo er ekki þá getum við ekki gengíð úr frá öðru en að þau séu lögleg. Þar með geta stjórnvöld ekki sett lög um að taka til baka verðtryggingu á þegar gerða verðtryggða lánasamninga.

 Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa framkvæmt hafa bjargað þúsundum heimila frá greiðsluþroti og er vandséð hvernig hægt hefði verið að gera mikið betur með þeim fjármunum sem ríkisstjórnin hefur haft úr að moða og því valdsviði sem Alþingi hefur en því eru takmörk sett af stjórnarskránni. Eitt er á hreinu. Það að setja lög um flata niðurfellingu lána er utan valdsvið Alþingis.

Hinar norðurlandaþjóðirnar geta veitt óverðtryggð lán á lágum vöxtum af þeirri einföldu ástæðu að verðbréf til langs tíma með lágum óverðtryggðum vöxtum eru söluvara á fjármálamarkaði í þeim löndum. Þannig er það einfaldlega ekki hér.

Ég er Samfylkingamaður vegna þess að Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur sem kemst næst mínum skoðunum á því hvernig þjóðfélagi ég vil búa í. Ég hef aldrei myndað mér skoðanir eftir því hvernig stefna Safmylkingarinnar er og hef verið óhræddur við að gagnrýna þegar mér finnst Samfylkingin vera á rangri leið bæði á blogginu og á fundum hjá Samfylkingunni.

Að lokum vil ég segja það að núverndi ríkisstjórn hefur jafnað mjög mikið lífskjör hér á landi þau þrjú ár sem hún hefur starfað. Gini stuðullinn sem telst vera góð mæling á jöfnuði í þjóðfélaginu hefur lækkað mjög mikið auk þess sem allir aðrir mælikvaðrar á jöfnuð koma vel út hér á landi og mun betur en þegar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn réðu ríkjum. Það að þurfa að eyða 216 milljarða kr. ríkissjóðshalla setur stjórnvöldum hins vegar miklar skorður og við þær aðstæður getua stjórnvöld einfaldlega ekki gert allt sem þau vilja í velferðamálum. Þar sem velferðamálin taka stóran hluta ríkissútgjalda þá var frá upphafi ljóst að ekki var hægt að vinna þetta verk án þess að lækka verulega útgjöld til velferðamála. Það hefur tekist hér án þess að skerða mikið kjör þeirra lakast settu. Núverandi ríkisstjórn er því svo sannarlega Norræn velferðastjórn.

Núverandi ríkisstórn hefur gert allt sem hún hefur getað til að hjálæa heimilum í skuldavanda og er vandséð hvernig hægt hefði verið að gera mikið betur innan þess valdsviðs sem Alþingi er sett af stjórnarskránni og innan þess fjárhagslega svigrúms sem verið hefur til staðar í þessu efni. Það er einfalelga þannig að án dóms um ólögmæti verðtryggðra lána er ekki og hefur aldrei verið möguleiki að lækka lán heimilanna flatt án þess að skattgreiðendur hefðu þurft að greiða kostnaðinn við það að mestu eða öllu leyti. Gallinn er sá að HH, Framsóknarflokkurinn, Hreyfingin og fleiri hafa blekkt fólk til að hala annað og þannig skapað falskar vonir hjá fólki sem aftur hefur leitt til þess í mörgum tilfellum að margir skuldarar hafa ekki verið að leita leiða sjálfir til að leysa sín mál og hafa meðal annars ekki notað þau úrræði sem sjórnvöld hafa boðið upp á og hefðu hugsanlega getað gert vanda þeirra mun viðráðanlegri. Það hefur síðan leitt til þess að fleiri heimili eru í vanga og eru að missa heimili sín en annars hefði verið. Það er ljótur leikur að blekkja fólk með þessum hætti til þess eins að slá pólitískar keilur.

Sigurður M Grétarsson, 9.9.2012 kl. 21:45

5 identicon

Sigurður M Grétarsson hefur marg sýnt það, að hann hefur ekki vald á almennri rökhyggju, sbr. orð hans um sjálfan sig í skreytni sinni  "... mikill jafnaðarmaður enda flokksbundinn í Samfylkingunni."  Einvers staðar er falin algjör meinloka í höfði þínu Sigurður M. Grétarsson. 

Samfylkingin hefur aktað bæði í Hruns-stjórninni og í Helferðar-stjórninni sem hreinn og tær fasistaflokkur, í stíl við Sjálfstæðisflokkinn, enda er Samfylkingin með penisduld í garð Sjálfstæðisflokksins og reynir því að dýpka rödd sína.  Þú manst væntanlega að Ingibjörg Sólrún fjallaði mikið um það að hún þyrfti að dýpka rödd sína, en Jóhann fékk sér bara víbrator.  Sigríður Ingibjörg verður að gæta sín, hún er nú þegar farin að tala eins og Sjálfstæðisbassi.  Átt þú í vanda með röddina Sigurður minn?  Kannski að reyna að losna við mútuskrækina? 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.9.2012 kl. 04:08

6 identicon

Árni Páll tekur þetta á brúnkunni, hann slagar brátt í Ingva Hrafn í duldinni.   Össur, eigum við að ræða um Össur, eigum við að ræða um Björgvin G., eigum við að ræða um "jafnaðarmennina" í Hrun-stjórninni?

Eigum við að ræða um Gutta, "jafnaðarmanninn" sem semur við ríkisforstjórann Björn Zoega um 15-föld lægstu laun?

Er það "jafnaðarmennska" Samfylkingarinnar að launamunur á Íslandi sé allt 15-faldur?

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.9.2012 kl. 04:13

7 identicon

Ég held að stóri skellurinn sé alveg að skella á. Ég veit um svo marga sem eru búnir með allt, allan sparnað og alles.. bara lottó-vinningur getur bjargað þeim.
Ég sjálfur tók ekki þátt í sukki eða svínarí, með allt í skilum en þarf ekki nema eitt smá þá fer ég yfir líka. Mitt íslenska lán er komið vel yfir verðmæti íbúðar, ég gæti gengið út með svona 8 milljón króna skuld á bakinu.. heimilislaus og alles....
Þessi ríkisstjórn er jafnslæm og sú sem var á undan.. og ekki tekur betra við eftir kosningar.. ef ég þekki íslendinga rétt

DoctorE (IP-tala skráð) 10.9.2012 kl. 10:32

8 identicon

Þú þarft ekki að halda það Doctor E sem er augljóst:  Fárviðrið á glóbalíska fjármálamarkaðnum er framundan.

En ... það mun gefa okkur, 320.000 manna þjóð, kjör aðstæður til að í heiðarlegt, sanngjarnt og réttlátt uppgjör,

sem Helferðarstjórnin gerði ekki, heldur kvittaði bara undir alla reikninga frá Deutsche Bank til að ESB aðlagast.

En ... það uppgjör mun fara fram ef við, almenningur þessa lands, stöndum saman til lýðræðis og velferðar

okkar allra og til hagsbóta fyrir okkur öll ... gegn gjörspilltri valda-elítu 4-flokksins.  Með háu C sprengjum við 4-flokkinn.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.9.2012 kl. 13:43

9 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Sigurður M Grétarsson, þú ert nokkuð smurð Samfylkingarvél sýnist mér og nenni ekki að elta ólar við allt sem kemur frá þér og þínum en tvennt vil ég þó staldra við, þú segir:

"Gallinn er sá að HH, Framsóknarflokkurinn, Hreyfingin og fleiri hafa blekkt fólk til að hala annað og þannig skapað falskar vonir hjá fólki sem aftur hefur leitt til þess í mörgum tilfellum að margir skuldarar hafa ekki verið að leita leiða sjálfir til að leysa sín mál og hafa meðal annars ekki notað þau úrræði sem sjórnvöld hafa boðið upp á og hefðu hugsanlega getað gert vanda þeirra mun viðráðanlegri. Það hefur síðan leitt til þess að fleiri heimili eru í vanga og eru að missa heimili sín en annars hefði verið. Það er ljótur leikur að blekkja fólk með þessum hætti til þess eins að slá pólitískar keilur."

Þú vilt semsagt halda því fram að vandi heimilanna sé að miklum hluta til Hagsmunasamtökum heimilanna að kenna vegna þess að við höfum barist fyrir því að ólögleg gengisbundin lán verði leiðrétt og að heimilin séu sett í forgrunn í stað bankanna eins og ríkisstjórnin hefur gert. Þú mátt auðvitað hafa þessa skoðun en ég deili henni ekki með þér og það virðast alltaf vera fleiri og fleiri sem eru að sjá þið eruð ekki að gera hlutina rétt.

Minni á að ekki fengum við í HH mikinn stuðning frá Samfylkingunni þegar við komum fram með það að gengisbynding lána væri ólögleg og raunar hefur ríkisstjórnin gert nánast allt vitlaust í sambandi við úrlausn þeirra lána og minni þá sérstaklega á ólög 151/2010 í því sambandi.

Þú setur þig og flokkinn þinn á heldur lágan hest finnst mér þegar þú segir: " Það sem ég sagði er að við þurfum að varast að skilgreina það sem nauðsynjavörur sem við ráðum ekki við að útvega öllum fjölskyldum og þær geta alveg verið án." semsagt, þú segir að þið, flokkurinn þinn og þú, viljið velja hvað á að setja inn í framfærsluviðmið til að fólkið fari nú ekki að gera of miklar kröfur. Þetta lýsir ykkur vel, skammtið upplýsingarnar og veljið það sem setja má fram. Minni þig enn og aftur á að Jóhanna þín skilgreinir ríkisstjórnina sem "norræna velferðastjórn" þó ég sé nokkuð viss um að Hrannar hefur ekki sagt henni hvað felst í þeim orðum. Málið er að í hinum norrænu ríkjunum sem eru sannkölluð velferðaríki, þá er ekki verið að fikta í því af stjórnvöldum hvað telst til framfærsluviðmiða, þar telst eðlileg framfærsla meðal annars innihalda laun og bætur sem duga til eðlilegrar framfærslu og er þar m.a. gert ráð fyrir að menn geti lifað mannsæmandi lífi og farið í eðlileg frí með fjölskyldunni.

En hér er bara búin til neysluviðmið sem tekur mið af rauneyðslu í þjóðfélagi sem hefur ekki til hnífs og skeiðar og svo leyfir Umboðsmaður skuldara sér að helminga það til að bankarnir fái meira af tekjum þeirra heimila sem eru svo óheppin að lenda þangað.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 10.9.2012 kl. 23:55

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Vilhjálmur Bjarnason. Ég hef aldrei gagnrýnt baráttuna um að fá fram viðurkennoingu á því að gengistryggð lán hafi verið ólöglega og þaðan af síður barátta fyrir því að ná fram viðurkenningu á forsendubresti eða ólögmæti verðtryggðra lána. Mað því að ná slíku fram var hægt að láta kröfuhafa í þrotabú bankanna taka þann skell á sig. Það voruð hins vegar ekki þið í HH sem stóðuð í þeim málaferlum sem enduðu með þeirri niðurstöðu að þau voru dæmd ólöleg og þið tókuð ansi seint við ykkur að fara í mál vegna verðtryggðu lánanna því þegar búið verður að gera endanlega upp lánasöfn bankanna og gera upp við þrotabú gömlu bankanna í lok þessa árs er endanlega búið að loka fyrir það að koma lækkun lána yfir á kröfuhafana í þrotabú gömlu bankanna.

Það sem ég var að segja er að með því að blekkja fólk með rangfærslum um að stjórnvöld gætu einfaldlega með lagasetningu komið þeirri lækkun yfir á kröfuhafana og þannig lækkað lán heimilanna án þess að skattgreiðendur þyrftu að bera kostnaðinn að mestu eða öllu leyt voruð þið að skapa falskar væntingar hjá fólki sem gerði það að verkum að það var ekki að nýta sér þau úrræði sem voru í boði heldur bíða eftir töfralausninni. Staðreyndin er sú að það er ekki og hefur aldrei veirð möguleiki að lækka innheimtanleg lán heimilanna án þess að skattgreiðendur þyrtu að borga brúasnn að mestu eða öllu leyti og því mátti það alla tíð vera ljóst að slík lausn væri ekki handan við hornið. Hefði fólk gert sér þetta ljóst þá hefði stór hluti þeirra sem nú er í vonlausum málum getað komið sér í viðráðanlega stöðu sem er orðið of seint núna. Einnig hafa HH alla tíð talað niður þær lausnir sem stjórnvöld hafa komið fram með og meðal annars notað orðalagið "að lengja í snörunni". Þannig hafa HH einnig latt fólk til að nýta sér úrræði sem hefðu getað komið þeim úr óviðráðanlegri stöðu í viðráðanlega stöðu.

Það er af þessum sökum sem allar líkur eru á því að mörg heimili eru að missa íbúðir sínar sem hefðu getað komist hjá því hefðu þau nýtt sér úrræði stjórnvalda á sínum tíma. Það er þess vegna sem ég fullyrði að það séu fleiri heimili að missa íbúðir sínar en væri ef HH hefðu aldrei verið stofnuð.

Hvað varðar hin svokölluðu Árna Páls lög þá var mikil réttaróvissa þegar þau lög voru sett og því farin varfærin leið til þess að hætta ekki á að ríkissjóður stæði frammi fyrir tugmilljarða skaðabótadómi gagnvart lántökum. Gleymum því ekki að það var ekki einhugur í Hæstarétti um þau lög og því hefði niðurstaðan allt eins geta farið á hinn veginn. Valið stóð milli þess að setja engin lög sem hefði að öllum líkindum leitt til þess að allir lántakar hefði haldið því fram að gengislánadómurinn frá 16. júní 2010 ætti ekki við þeirra lánasöfn og þar með haldið áfram að innheimta þau lán að fulli og þar með mun hærri upphæðir en samkvæmt Árna Páls lögunum eða reyna að fara varfærna leið með niðurstöðu í öðru dómsmáli í septenber 2010 í huga og tryggja þannig sömu meðferð allra gengistryggðra lána. Slík lagasetning hindraði ekki lántaka í að leita betri réttar eins og gert var með góðum árangri. Það er því út í hött að halda því fram að einhver hafi orðið ver settur ef engin lög hefðu verið sett. Það er auðvelt að vera vitur eftirá og segja að lántakar hefðu verið betur settir hefðu lögin verið öðruvísi því það voru mjög skiptar skoðanir á því meðal lögfræðinga hvort slíkt væri óhætt með tilliti til hugsanlegrar skaðabótakröfu á hendur ríkinu hefði Hæstiréttur komist af þeirri niðurstððu að og langt hefði verið gengið.

Það er nákvæmlega sama viðhorf uppi gagnvart flatri lækkun lána sem HH eru að krefjast að sé sett í lög. Ef Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að of langt sé gengið með slíkri lagasetningu þá getur ríkissjóður lent í hátt í 300 milljarða skaðabótadómi. Það er einfaldlega of mikil áhætata í slíku fyrir ríkissjó sérstaklega þegar haft er í huga að lántakar hafa allan tíman getað farið í mál við lánastofnanir út af verðtryggðu lánunum og þannig náð fram rétti sínum án þess að tekin sé slík áhætta með fjárhag ríissjóðs. Að halda því fram með þeirri varfærni séu stjórnvöld að taka afstöðu með lánveitendum er rakið kjaftæði svo vægt sé til orða tekið.

Hvað framfæarsluviðmið varðar þá er það svo í öllum norrænum velferðarríkjum og reyndar öllum ríkjum sem eru með slík viðmið að þau eru ákveðin pólitískt. Það er engin þjóð sem notar tölur um meðalneyslu sem lágmarksframfærsluviðmið og þá fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Annars vegar er það sú staðreynd að inni í meðalneyslunni er neysla ríkra fjölskyldna sem lifa við mikinn lúksus. Og hin ástæðan er einfaldlega sú að það er útilokað að allir geti verið yfir meðaltalinu. Það þarf ekki mikla þekkingu í meðaltalsútreikningum til að átta sig á því. Það lýsir því mikilli vanþekkingu á þessum málum að halda ða meðalneysla sé eihver lágmarksframfærsla.

Þegar teknar eru pólitískar ákvarðandi um lágmarksframfærslu þá byggir það á mati á kostnaði við þau gæði sem tekin er pólitísk ákvörðun um að allir eigi að geta leyft sér. Í ríkum þjóðfélögum er stór hluti vara sem eru inni í lágmarksframfærsluviðmiðinu vörur sem auðvelt er að komast af án en menn ákveða einfaldlega að í eins ríku þjóðfélagi og um ræðir sé ástæða til að gefa öllum fjölskyldum kost á þeim gæðum. Það segir sig sjálft að við slíka ákvörðun þá er mismunandi milli landa hvernig þetta er metið. Ríkari þjóðfélög geta einfaldlega leyft sér meira í þeim efnum en þau sem ekki eru eins rík. Það er því pólitísk ákvörðun sem byggir á því hversu rík þjóðfélögin eru hvað er inni í lágmarksframfærsluviðmiði og hvað ekki. Slíkt er engin fölsun eða fikt við framfærsluviðmið eins og þú ert að halda fram.

Svo er það einfaldlega rangt hjá þér að við Íslendingar séum þjóð sem ekki eigi til hnífs og skeiðar. Vissuleg eru til fjölskyldur í þeirri stöðu en það eru undantekningar hér á landi.

Hvað varðar helmingun Umboðsmanns skuldara þá er það einmitt sú aðferð sem helst er notuð til að meta fátæktarmörk að notast við 50 eða 60 prósent af miðgildi neyslu í þjóðfélaginu. Miðgildi er sú tala þar sem helmingur fjölskyldna er fyrir ofan og helmingur fyrir neðan. Það er því út í hött að tala um það sem lágmarksframfærslu og það er líka útilokað að allar fjölskyldur geti verið fyrir ofan það. Þetta er meðal annars það viðmið sem OECD notar til að meta fátæktarmörk. Umboðsmaður skuldara er því ekki að gera neitt annað en að nota aðferð sem er viðurkennd og viðhöfð alls staðar í heiminum til að meta fátæktarmörk. Það er síðan pólitísk ákvörðun hvort fátæktarmörk sé lagalegt lágmarksframfærsluviðmið eða hvesu mikið frá því það er gert. Því miður hefur aldrei verið ákveðið lágmarksframfærsluviðmið hér á landi en þar er ekki bara við núverandi ríksstjórn að sakast því engin önnur ríkisstjórn hér á landi hefur farið þá leið.

Sigurður M Grétarsson, 11.9.2012 kl. 17:18

11 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

DoctorE. Það er hrunið sem hefur haft sparnaðinn af fólki en ekki aðgerðir eða aðgerðarleysi núverandi ríkisstjórnar. Reyndar er að svo að það eru aðeins þeir sem keyptu sína fyrstu íbúði á toppi íbúðaverðbólunnar eða nýttu sér bóluverðið til að taka frekari lán út á íbúðir sínar til að taka frelari lán út á þær sem eru í þeirri stöðu að skuldir á íbúðunum eru hærri en verðmæti þeirra. Það þarf ekki að fara lengra aftur en til ársins 2004 til að finna tíma þar sem vístiala húsnæðisverðs hefur hækkað meira en vístiala neysluverðs til verðtryggingar. Það eru því aðeins þeir sem keytu sína fyrstu íbúða eða stækkuðu verulega við sig á árunum 2004 til 2008 sem eru í þessari stöðu vegna hrunsins.

Sért þú meðal þeirra þá er það ríiisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem olli bóluni sem sprakk aframan í okkur sem á sök á stöðu þinni en ekki núverandi ríkisstórn sem hefur gert allt sem hún hefur völd og fjárhagslegt svigrúm til að gera fyrir skuldara. Það sem aðiloar eins og HH og fleiri hafa heimtað að ríkisstórnin geri og fordæmt hana fyrir að gera ekki eru aðgerðir sem eiga það sameiginlegt að vera annað hvort brot á stjórnarskránni og þar mneð utan valdsviðs Alþignis eða vera það dýrar fyrir skattgreiðendur að það er fjárhagslega óraunhæft að fara út í þær framkæmcir.

Ekki vera að hengja bakara fyrir smið og kenna núverandi ríkisstjórn um það sem er sök ríkisstjórnar Sjálfstæðísflokks og Framsóknarflokks.

Sigurður M Grétarsson, 12.9.2012 kl. 02:15

12 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Pétur Örn. Þú ert svo sannarlega að kasta steini úr glerhúsi þegar þú ásakar aðra um að fæara ekki rök fyrir máli sínu. Þín skrif hér að ofan eru ekkert annað en ljót orð án nokkurs rökstuðnings. Slík skrif kallar á Íslaensku "skítkast" og segja meira um þann sem viðhefur þau en þann sem þeim er beint að.

Þú til dæmis kallar Samfylkinguna "fasistaflokk" án þess að færa nokur rök fyrir þeirri ásökun. Það er ekki hægt að rökræða við þá sem ekki bera fram nein rök fyrir fullyrðingum sínum.

Sigurður M Grétarsson, 12.9.2012 kl. 02:20

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sigurður M: "Það voruð hins vegar ekki þið í HH sem stóðuð í þeim málaferlum sem enduðu með þeirri niðurstöðu að þau voru dæmd ólöleg og þið tókuð ansi seint við ykkur að fara í mál vegna verðtryggðu lánanna"

Hér eru tvær staðreyndir: það var félagsmaður í HH sem var aðili að því máli sem reynst hefur þýðingarmest varðandi ólögmæti og endurmat á gengistryggðum lánum. (Mál nr. 600/2011).

Málshöfðun sem HH hefur staðið að vegna verðtryggða lána er sú fyrsta af því tagi í allri Íslandssögunni.

Það mætti þá spyrja á móti: hvers vegna var ekki einhver annar fyrir löngu síðan búinn að framfylgja þeim lögum sem eiga að heita að gilda hér í landi? Eins og til dæmis stjórnvöld sem hafa þá skyldu að gera það?

Það ætti að spyrja að því frekar heldur en að gagnrýna þá sem eru þó að sinna sínum borgaralegu skyldum og reyna að verja samborgarana fyrir óréttmætum árásum gegn eignarrétti þeirra, heimilisfriði og öðrum mannréttindum!

P.S. Það er einn flokkur á Íslandi sem er þjóðernissinnaður jafnaðarmannaflokkur = national socialist. Gettu hver.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.10.2013 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband