Upphafið að endanum að byrja ?

Nú virðist það að byrja sem við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum verið að vara við undanfarin rúm tvö ár. Falinn framfærsluvandi fjölskyldnanna er að koma í ljós ásamt því að bankarnir eru að byrja að fara að alvöru í það að taka eignir af fólki sem hefur ekki getað eða viljað borga stökkbreytt lán sín og verið að bíða eftir "alvöru" aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem virðist endanlega hafa sofnað á verðinum sem margir höfðu þó von til að mundi ekki gerast.

Það er skömm af því hvað margir hér á landi þurfa að velja á milli þess að eiga fyrir mat eða eiga fyrir leigunni eða afborgunum lána húsnæðis fyrir fjölskylduna. Ég hef margoft, bæði í bloggi mínu og vinnu fyrir Hagsmunasamtök heimilanna þar sem ég er í stjórn, bent á að það er ekki bara skuldavandi sem almenningur á við að etja hér á landi heldur líka að launavandinn sé orðinn það mikill að það sé sívaxandi fjöldi fólks sem hefur ekki efni á að halda heimili með sómasamlegum hætti og þurfi að bjóða börnum sínum upp á eitthvað sem á ekki að þurfa að líðast í þjóðfélagi eins og okkar. Bendi ég t.d. á skrif Hörpu Njáls þessu til staðfestingar en hún hefur bæði verið sjálf og sem hluti af GET hóp Hagsmunasamtaka heimilanna fjallað um framfærslukostnað og fátækt á Íslandi. Höfum við bent á að gera þurfi raunframfærsluviðmið sem grunnlaun, tryggingar, bætur og atvinnuleysistryggingar yrðu miðaðar út frá. Það sem gert var hér fyrr á árinu og kallað var neysluviðmið var ekkert annað en mæling á neyslu en hafði ekkert með það að segja hvað kostar að lifa á Íslandi fyrir fjölskyldurnar. Til skýringa felst munurinn á útreiknuðum neysluviðmiðum og raunframfærsluviðmiðum í því að annars vegar er miðgildi raunneyslu mælt út frá fyrirliggjandi gögnum Hagstofu Íslands. Hins vegar er eðlileg raunframfærsla fundin út af sérfræðingum og er þá miðað við að skilgreina framfærsluþætti og  þjónustu sem  á að teljast fullnægjandi lýsing á hóflegri og eða eðlilegri framfærsluþörf fjölskyldu af tiltekinni stærð, á tilteknum stað og á tilteknum tíma. Út frá skilgreindum framfærsluþáttum sem teljast uppfylla eðlilega framfærsluþörf er fundinn raunframfærslukostnaður. Raunframfærslukostnaður og lágmarks framfærsluviðmið unnin út frá þeim hafa um margra ára skeið verið opinber á öðrum Norðurlöndum, svo sem Danmörku, Svíþjóð og Noregi og eru grunnlaun og annar framfærslukostnaður miðaður við það þannig að þeir sem eru með lægstu launin og lifa á bótum geta lifað nokkuð mannsæmandi lífi í þessum löndum sem er ekki hægt hér á landi.Að mínu mati er það ein mesta kjarabótin sem völ er á að aflétta verðtryggingunni af heimilum landsins og setja á sama tíma hámark á vexti húsnæðislána þannig að allir aðilar hafi hag að því að halda verðhækkunum í lágmarki og þar með verðbólgu sem verðtryggingin er afleiða af.     

Ástandið á eftir að versna mikið ef við förum ekki að horfast í augu við vandann og gera það sem gera þarf og vil ég meina að það sé mikill dulinn vandi, t.d vegna þess að fjármálastofnanir skrái vandann ekki rétt og séu ekki að gefa upp réttar tölur um fjárhagsvanda heimilanna. Má í því sambandi minnast á að það eru ekki til samræmdar tölur um þann vanda sem þó er hægt að mæla og frumvarp sem gefur leyfi til samkeyslu gagn er kæft í nefnd þingsins.  Þetta er ekkert annað en þöggun af verstu tegund sem kemur til með að bíta okkur illilega þegar hið rétta kemur í ljós og áhyggjur mínar og okkar í Hagsmunasamtökum heimilanna er að þá verði vandinn orðinn nánast óbærilegur fyrir allt of marga með öllu því slæma sem því fylgir. Komst þó að því innan hóps sem heitir Velferðavaktin og ég á sæti í fyrir Hagsmunasamtök heimilanna að það eru 68 % lána Íbúðalánasjóðs sem ekki er verið að borga af samkvæmt upprunalegum lánaskilmálum sem þýðir að það eru bara 32 % lána ÍLS sem verið er að borga af eins og upphaflega stóð til og samið var um og gefur það mér ástæðu til að ætla að ástandið sé ennþá verra hjá bönkunum því þeir lánuðu miklu hærri upphæðir vegna íbúðarlána auk þess að lána til endurfjármögnunar eftir miklar hækkanir sem sköpuðust vegna óhóflegra lána þeirra þar sem jafnvel var tekið inn í 40 ára húsnæðislán yfirdráttur og bílalán lántakans og honum svo boðinn nýr yfirdráttur og nýtt bílalán strax á eftir á meðan ÍLS lánaði bara til íbúðarkaupa og að hámarki 16 til 20 milljónir. 

Hvet alla til að fara inn á heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna, sem er heimilin.is og taka þátt í undirskriftarsöfnun okkar um áskorunar til stjórnvalda um afnám verðtryggingar á heimilslánum ásamt leiðréttingu stökkbreyttra verðtryggðra og gengislána með kröfu um þjóðarathvæðagreiðslu ef stjórnvöld hafa ekki dug í sér til að gera þetta af sjálsdáðum fyrir áramót.

Við getum komið okkar frábæra landi og þjóð út úr þessum vítahring ef við bara viljum og stöndum saman en til þess verðum við að nenna að allavega fara í tölvuna og skrá okkur í ofangreinda undirskriftarsöfnun.


mbl.is Hrina uppboða í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sandy

Ég þakka fyrir góðan pistil Vilhjálmur ekki fjárfestir. Ég fylgist með síðunni ykkar hjá hagsmunasamtökunum og þakka fyrir hana, ég veit ekki hvernig íslenskur almenningur hefði farið að ef þið væruð ekki að vinna þetta frábæra starf, ég er allavega með það klárt og kvitt að ekkert hefði orðið úr leiðréttingu bílalánana ,og er sannarlega búin að skrifa mig á listann hjá ykkur.

Ein spurning, veistu hvort Íbúðalánasjóði er heimillt að leigja eignir þegar kauptilboð liggur fyrir,vel að merkja án þess að svara tilboðinu.

Sandy, 4.9.2011 kl. 07:35

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Samkvæmt lögum er skylt að gefa gerðarþola kost á því að leigja húsnæðið í eitt ár að loknu uppboði.

Aðeins veðhafi getur komið fram sem löglegur gerðarbeiðandi. Flest þessara veða eru ennþá þinglýst eign gömlu bankanna. Sem hafa ekki lengur starfsleyfi.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.9.2011 kl. 14:47

3 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Takk fyri góð orð Sandy. Til að geta sagt eitthvað af viti um þessa spurningu þína um ÍLS þá verð ég að vita meira um málið, þú getur líka hringt í mig í 822-8183 ef þú vilt það frekar. 

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 5.9.2011 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband